Ferðamönnum frá Kína heldur áfram að fjölga
Fjöldi kínverskir ferðamanna nam 9.800 í febrúar og fjölgaði þeim um 14,5% á milli ára. Á sama tíma fækkaði ferðamönnum um 6,9% samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia um brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll.
Kínverjar voru þriðju í röðinni í fjölda brottfara á eftir Bandaríkjamönnum og Bretum í febrúar, eins og í janúar. Töluvert fleiri kínverskir ferðamenn hafa komið til landsins það sem af er ári en frá Þýskalandi og Frakkalandi.
Á fyrstu tveimur mánuðum ársins komu 17.557 ferðamenn frá Kína til Íslands sem er 16,2% auknin á milli ára. Til samanburðar komu 13.534 frá Þýskalandi og 12.201 frá Frakklandi. Samdráttur í fjölda ferðamanna var 6,4% í janúar og febrúar.
Ef fram heldur sem horfir stefnir í að fjöldi kínverskra ferðamanna til Íslands verði yfir 100 þúsund strax á þessu ári.